Jazzahead! í Bremen er stærsta jazzráðstefna í Evrópu og hefur hlotið viðurnefnið "The Family Reunion of Jazz". Ráðstefnan er samkomustaður tónlistarfólks, útgáfufyrirtækja, auglýsingastofa, hátíðarframleiðenda, bókara, útvarpsstöðva og annara fagaðila. Markmið viðburðarins er að skapa vettvang til tengslamyndunar, kynna upprennandi listafólk og stuðla að samstarfi innan geirans.
Ráðstefnan stendur yfir í fjóra daga og býður upp á yfir 200 tónlistarviðburði, sem eru almennt sóttir af meira en 20.000 áhorfendum þar af 3.500 fagaðilum úr tónlistariðnaðinum. Á tónleikahluta ráðstefnunnar koma fram bæði þekktir listamenn úr hinni alþjóðlegu jazzsenu og ungt og upprennandi tónlistarfólk.