Tónlistarforleggjari

Veldu það hlutverk í flæðiritinu sem þú vilt fræðast nánar um.
Tónlistarforleggjari sér um umsýslu og hagsmunagæslu höfundaréttar — ekki hljóðritaréttar (sem er oftast í umsýslu útgefanda/plötufyrirtækis).






Hlutverk forleggjara er að koma tónlist á framfæri, tryggja skráningar og rétt greiðsluflæði frá höfundaréttarsamtökum og vinna að því að skapa tekjutækifæri — t.d. með því að fá tónlist notaða í kvikmyndum, sjónvarpi, tölvuleikjum og auglýsingum.

Orðið forlag vísar til þess að upprunalega voru tónlistarforleggjarar nótnaveitur. Þetta tíðkast enn að hluta til (samanber nótnaveita Tónlistarmiðstöðvar), en nú er meginhlutverk forleggjara að umsýsla höfundarétt í stafrænu umhverfi.

Tónlistarforleggjarar gera yfirleitt tímabundna samninga við listafólk og fá þá leyfi til að nýta höfundarétt verka þeirra á samningstímabilinu. Þóknun forleggjarans er yfirleitt 15–20% af þeim höfundaréttartekjum sem hann innheimtir og/eða skapar. Við mælum ætíð með að listafólk leiti sér lögfræðiálits áður en gengið er til samninga við tónlistarforleggjara.

Á undanförnum árum hefur verið gríðarleg gróska í starfsemi tónlistarforleggjara á Íslandi. Þetta má rekja til aukinnar áherslu á höfundarétt og vaxandi alþjóðlegra tækifæra fyrir íslenska lagahöfunda.

Fyrirtæki á borð við INNI Music, Iceland Sync og Wise Music Iceland vinna markvisst að því að koma íslenskri tónlist í alþjóðlegt myndefni og tryggja rétta umsýslu höfundaréttar og greiðsluflæði til höfunda.
Tákn Tónlistarmiðstöðvar