Almannatengslafyrirtæki (e. publicists) aðstoða listafólk, útgáfufyrirtæki og aðra í tónlistargeiranum við að kynna útgáfur, viðburði og feril þeirra almennt.
Þau vinna að því að byggja upp ímynd, tryggja fjölmiðlaumfjöllun og bæta sýnileika listafólks í gegnum fjölbreyttar leiðir.
Helstu verkefni almannatengslafyrirtækja eru meðal annars að:
- Senda út fréttatilkynningar og tilkynningar um nýjar útgáfur
- Bóka viðtöl, sjónvarps- og útvarpsþætti
- Tryggja umfjöllun í prent- og netmiðlum
- Skipuleggja kynningarviðburði og fjölmiðlaheimsóknir
- Þróa kynningarstefnu til lengri og skemmri tíma
Hverjir ráða almannatengil?
Almannatenglar vinna bæði fyrir einstaklinga og fyrirtæki í tónlistarbransanum.
Algengt er að:
- Listafólk ráði sér almannatengil fyrir sérstakar útgáfur eða verkefni, t.d. nýtt lag, plötuútgáfu eða tónleikaferðalag
- Útgáfufyrirtæki vinni með almannatenglum til að kynna sitt listafólk
- Tónlistarhátíðir, viðburðir og tónlistarverðlaun ráði almannatengla til að stýra kynningarmálum
Greiðslufyrirkomulag
Þjónusta almannatengla er yfirleitt keypt fyrir fast mánaðargjald eða gegn samningi sem tekur til ákveðins tímabils eða verkefnis.
Sumir almannatenglar bjóða einnig upp á afmarkaða þjónustupakka fyrir einstök verkefni, t.d. kynningu á einni útgáfu. Það er mikilvægt að hafa í huga að almannatenglar geta ekki ábyrgst fjölmiðlaumfjöllun – þeir auka líkurnar á umfjöllun með markvissri vinnu en geta ekki stjórnað ákvörðunum fjölmiðla.