Víkingur Heiðar hlýtur Gullverðlaun Konunglega filharmóníufélagsins

26 September 2025

Í gærkvöldi hlaut Víkingur Heiðar ein af virtustu alþjóðlegu viðurkenningum í tónlist: Gullverðlaun Konunglega filharmóníufélagsins (Royal Philharmonic Society).

Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Royal Festival Hall í London í kjölfar flutnings Víkings og Konunglegu filharmóníunnar á þriðja píanókonsert Beethovens undir stjórn Santtu-Matias Rouvali. Gullverðlaun RPS voru fyrst veitt árið 1871 og bera þau mynd af Beethoven til marks um mikilvægt samband tónskáldsins og félagsins, en Beethoven samdi 9. sinfóníu sína að beiðni þess. Mörg af helstu tónskáldum aldanna eru meðal fyrri verðlaunahafa, þar á meðal Brahms, Elgar, Sibelius, Rachmaninov, Stravinsky og Britten.

Víkingur Heiðar er meðal dáðustu klassísku tónlistarmanna samtímans. Upptökur hans hafa náð yfir milljarði hlustana á streymisveitum og hann hefur hlotið fjölda verðlauna, þar á meðal GRAMMY fyrr á þessu ári fyrir besta klassíska einleikinn með plötunni J.S. Bach – Goldberg Variations.

„Það er mér mikill heiður – og svolítið yfirþyrmandi – að vera valinn í hóp handhafa Gullverðlauna Konunglega filharmóníufélagsins,“ sagði Víkingur. „Ég er þakklátur og snortinn yfir þessari einstöku viðurkenningu. Ég vil þakka tryggum og ástríðufullum áheyrendum mínum um allt Bretland, sem láta mér ætíð líða eins og ég sé heima þegar ég spila fyrir þá. Það eru mér forréttindi að leika fyrir ykkur tónlist sem ég elska og trúi á.“

Við óskum Víkingi Heiðari innilega til hamingju með þennan stórkostlega og verðskuldaða heiður.

Myndir eftir Mark Allen

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar