RAKEL og Spacestation á leiðinni á SXSW!

14 January 2026

RAKEL og Spacestation eru á leiðinni á South by Southwest (SXSW) hátíðina sem haldin verður dagana 12.-18. mars í Austin, Texas. 

South by Southwest (SXSW) er árleg samkoma sem sameinar kvikmynda-, fjölmiðla-, tækni- og tónlistarhátíð og fer fram um miðjan marsmánuð í Austin, Texas. Hátíðin var fyrst haldin árið 1987 og hefur hún vaxið bæði að umfangi og stærð með hverju ári síðan. Í dag er hún ein stærsta faghátíð í heimi en undanfarin ár hafa Tónlistarmiðstöð, Iceland Airwaves og Íslandsstofa tekið virkan þátt í herlegheitunum.

Lágstemmdu tilraunapoppstjörnuna RAKELi þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónlistarunnendum. Hún hefur verið að gefa út frá árinu 2020 og unnið með ótrúlegasta og ólíkasta fólki t.a.m. JóaPé og Ceasetone, Pálma Ragnarssyni, LÓN, Kaktusi Einarssyni, Dr. Gunna, Salóme Katrínu og Nönnu. Í fyrra kom fyrsta sólóplata RAKELar út á vegum OPIA Community, útgáfufyrirtækis og listasamsteypu í eigu Ólafs Arnalds. og vakti hún gríðarlega athygli á alþjóðavísu. Á Iceland Airwaves hátíðinni síðastliðinni vann RAKEL Airwaves Plus verðlaunin en hluti af verðlaununum er að koma fram á faghátíðunum FOCUS Wales í Wrexham og New Colossus í New York. Það er því óhætt að ætla að að verði nóg að gera hjá RAKELi 2026. 

Fyrsta útgáfa skítugu hávaðarokksveitarinnar Spacestation, Hvítt vín, var tilnefnt til Íslensku tónlistarverðlaunanna árið 2024 en sveitin vann svo sömu verðlaun ári seinna fyrir lagið Í Draumalandinu. Lögin komu bæði út á fyrstu breiðskífu sveitarinnar Reykjavík Syndrome í fyrra og hlaut platan einróma lof gagnrýnenda. Allar götur síðan hefur Spacestation verið á flakki út um Evrópu en sveitin heldur nú til Bandaríkjanna í fyrsta sinn. 

Tónlistarmiðstöð verður að sjálfsögðu á staðnum og munum við koma að ýmsum öðrum viðburðum á hátíðinni með það fyrir augum að skapa frekari tækifæri fyrir íslenskt tónlistarfólk í Bandaríkjunum. 

Skráðu þig á póstlista Tónlistarmiðstöðvar til að fá fréttir af tækifærum, eins og SXSW og öðrum hátíðum, beint í æð.

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar