Tónlistarmiðstöð tekur þátt í Les Arcs Film Festival 2024 sem fer fram í hjarta frönsku Alpanna, dagana 14.-21. desember. Í ár hefur Ísland verið valið fókusland hátíðarinnar og auk þess að taka á móti fulltrúum íslensku kvikmyndatónlistarinnar og hýsa tónleika íslensks listafólks mun hátíðin sýna 20 íslenskar kvikmyndir. Hátíðin er mikilvægur menningarviðburður sem miðar að því að kynna fjölbreytileika evrópskrar kvikmyndar, og í ár býður hún þátttakendum upp á einstakt tækifæri til að upplifa framlag íslenskrar tónlistar og kvikmynda til menningarheims Evrópu.
Íslensk kvikmyndartónskáld í frönsku ölpunum
Þetta árið mun „tónlistarþorp“ (e. Music village) hátíðarinnar varpa ljósi á framlag Íslands til kvikmyndatónlistar, með áherslu á þau sterku tengsl sem eiga sér stað á milli tónlistar- og kvikmyndabransans.
Þrjú af fremstu kvikmyndatónskáldum Íslands taka þátt í tónlistarþorpi hátíðarinnar
Herdís Stefánsdóttir verður í Feature Film-dómnefnd hátíðarinnar. Hún hefur meðal annars unnið að tónlist fyrir kvikmyndirnar Knock at the Cabin og The Sun Is Also A Star.
Eðvarð Egilsson er þekktur fyrir tónlist sína við kvikmyndir eins og Smoke Sauna Sisterhood og Skjálfta.
Atli Örvarsson hefur komið að verkefnum eins og The Hitman’s Bodyguard og The Eagle. Atli tekur þátt í hátíðinni sem framleiðandi The Fires, sem var valin til sérstakrar sýningar í flokknum verk í vinnslu.
Á hátíðinni verða jafnframt tvö íslensk tónlistaratriði:
Lúpína kemur fram í opnunarpartýi hátíðarinnar 14. desember. Lúpína er þekkt fyrir draumkennt syntapopp en síðasta plata hennar, Marglytta, hefur fengið mikið lof fyrir margbrotinn hljóðheim og áhrifamikla texta.
Högni Egilsson mun koma á svið í bransaþorpinu (e. Industry village) 16. desember ásamt fiðluleikaranum og tónskáldinu Viktori Orra Árnasyni. Högni hefur verið iðinn við kvikmyndartónlist og samdi þar á meðal tónlistina fyrir Kötlu og Snertingu.
Aðrir fagaðilar sem fara á hátíðina:
Salka Valsdóttir, listrænn ráðgjafi og tónlistarkona.
Sveinn Geirsson, tónskáld og framleiðandi.
Katrín Helga Andrésdóttir, leikstjóri og höfundur HEX.
María Rut Reynisdóttir, framkvæmdastjóri Tónlistarmiðstöðvar.
Signý Leifsdóttir, sérfræðingur hjá Tónlistarmiðstöð.