Ingi Garðar Erlendsson tekur við stjórntauminum á Love Letter lagalistanum þessa vikuna. Hann tileinkar lagalistanum öllu því magnaða spunalistafólki sem kemur fram á Jazzhátíð Reykjavíkur, sem stendur einmitt yfir þessa dagana.
Ingi Garðar er þúsundþjalasmiður með meiru sem hefur í gegnum árin markað stór spor í íslensku tónlistarlífi. Hann er lakkplötusnúðurinn Herra Hljóðgeimir, túbuleikari blásturskvintettsins Brassgat í bala, meðlimur í samtökum ágengra tónsmiða um Reykjavík (S.L.Á.T.U.R.) og auðvitað hljómsveitarstjóri Skólahljómsveitar Vestur- og Miðbæjar – verkefnis sem hann hlaut viðurkenninguna Reykvíkingur ársins fyrir fyrr í sumar.
Tvö afsprengi Skólahljómsveitar Vestur- og Miðbæjar koma fram á sérstökum fjölskylduviðburði á Jazzhátíð Reykjavíkur á sunnudaginn. Þar leika Litla sveit – nýstofnuð hljómsveit sem spilar eigin tónlist – og Stórsveit SVoM undir stjórn Samúels Jóns Samúelssonar. Með þeim koma einnig fram Djazzkrakkar, hópur mosfellskra ungmenna á aldrinum 10–15 ára sem spinna af mikilli leikgleði.
Viðburðurinn fer fram í Iðnó sunnudaginn 31. ágúst kl. 16.00. Hann er opinn öllum og aðgangur er ókeypis.
Love Letter lagalisti Inga Garðars stendur eins og Jazzhátíð sjálf – með báða fætur á jörðinni en hausinn í skýjunum. Hin fullkomna sneiðmynd af lifandi og leikandi jazzsenu borgarinnar.
Eigiði yndislega helgi!