Dagur íslenskrar tónlistar - Sjáið myndirnar

02 December 2025

Myndir eftir Gunnlöði Jónu

Degi íslenskrar tónlistar var fagnað í gær með hátíðardagskrá í Hörpu þar sem STEF og SFH notuðu tækifærið og veittu viðurkenningar þeim einstaklingum og/eða hópum sem þykja hafa lagt lóð á vogarskálar í þágu íslensks tónlistarlífs á síðustu misserum.

Hefð er fyrir því að hátíðahöld dagsins hefjist á samsöngi grunnskólabarna um allt land og er lagið valið í samráði við tónmenntakennara landsins. Að þessu sinni varð lagið Eitt af blómunum eftir Pál Óskar Hjálmtýsson og Benna Hemm Hemm fyrir valinu og mætti tvíeykið í Snælandsskóla um morguninn til að taka þátt í flutningnum. Palli og Benni voru svo mættir í Hörpu seinna um daginn til að opna formlega hátíðadagskrá með flutningi á sama lagi. 

Hljómplötuútgáfan Sticky Records hlaut Hvatningarverðlaun Dags íslenskrar tónlistar, fyrir að vera heimili íslenskrar grasrótar og hafa veitt nýrri bylgju íslenskrar hipphopptónlistar öflugt brautargengi. 

Félagsskapurinn MMF Iceland hlaut Nýsköpunarverðlaun Dags íslenskrar tónlistar, fyrir að sameina samfélag umboðsfólks á Íslandi með því ljósi að styðja og styrkja enn frekar rödd íslensks tónlistarfólks heima og að heiman.  

Flytjendaverðlaunum FÍH er ætlað að beina athygli að framúrskarandi hljóðfæraleik í öllum tónlistartegundum. Að þessu sinni hlaut „Óþekkta hrynsveitin“ verðlaunin en það er vaskur hópur flytjenda sem séð hefur um undirleik í sýningu Borgarleikhússins, Moulin Rouge, upp á síðkastið. Gunnar Hrafnsson, forma[ur FÍH veitti hópnum verðlaunin.

Þá var komið að árlegu ástarbréfi til íslenskrar tónlistar, en í ár var höfundur þess tónlistarkonan, rithöfundurinn og teiknarinn Lóa Hjálmtýsdóttir. Lóa tileinkaði bréfið íslenskri barnatónlist og setti einnig saman lagalista við tilefnið. Bréfið og lagalistann má finna hér.

Glugginn eru verðlaun sem veitt eru þeim er sýna íslenskri tónlist sérstakt atfylgi og að þessu sinni var það tónleikastaðurinn IÐNÓ sem hlaut Gluggann fyrir að byggja upp og hlúa að heimkynnum íslenskrar tónleikamenningar við tjörnina í Reykjavík og gera tónlistarfólki kleift að skapa list sína við fyrsta flokks aðstæður. 

Heiðursmerki STEFs hlaut tónlistarkonan Ragnhildur Gísladóttir. Það er auðvitað of langt mál að tíunda hennar afrekaskrá en hún tók þó fram í þakkarræðu sinni að henni þætti vænt um að fá slíka viðurkenningu svona snemma á ferlinum.

Kvennakórinn Katla flutti við tækifærið stórskemmtilega útsetningu af laginu Ekkert mál sem Ragga samdi og gerði frægt með hljómsveitinni Grýlunum. 

Útflutningsverðlaun Dags íslenskrar tónlistar féllu Ásdísi Maríu Viðarsdóttur í skaut fyrir afar blómstrandi og sífellt vaxandi feril sinn síðustu misseri og að halda um leið uppi merkjum íslenskrar tónlistar um víða veröld með miklum sóma. 

Loks voru það aðalverðlaun dagsins, Lítill fugl; heiðursverðlaun Dags íslenskrar tónlistar en í ár hlutu Músiktilraunir þau, fyrir að byggja brautarpall fyrir ungt fólk í tónlist og hafa um langt skeið leitt fyrstu skref efnilegasta tónlistarfólks landsins með farsælum hætti. 

Ásdís María lokaði svo formlegri dagskrá með flutningi á partísprengjunni Pick Up og óútgefnu lagi að nafni Someone else og leiddi að lokum viðstadda í hópsöng á laginu Jólin alls staðar. Yndisleg stund.

Áfram íslensk tónlist!

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar