Dagur íslenskrar tónlistar - Ástarbréf til íslenskrar tónlistar eftir Lóu Hjálmtýsdóttur

02 December 2025

Tónlistarkonan, rithöfundurinn og myndasöguhöfundurinn Lóa Hjálmtýsdóttir tók að sér að semja og flytja ástarbréf til íslenskrar tónlistar á Degi íslenskrar tónlistar í gær, 1. desember 2025.

Í tilefni dagsins buðum við Lóu einnig að taka yfir Love Letter lagalistann okkar og tileinkar hún bæði bréfinu og lagalistanum íslenskri barnatónlist. Hér fyrir neðan má finna bæði lagalistann, sem á eflaust eftir að kæta flest hjörtu í skammdegisskutlinu í slabbi og traffík og auðvitað ástarbréf Lóu.

Áfram íslensk barnatónlist! 

Iceland Music Love Letter


Ástarbréf til íslenskrar tónlistar eftir Lóu Hjálmtýsdóttur


Kæru gestir og öll sem búum hér saman á Diskóeyjunni lengst úti í ballarhafi. Innilega til
hamingju með Dag íslenskrar tónlistar. Takk fyrir að bjóða mér og ég vona að þið sjáið ekki eftir
því.


Þegar mér var boðið að flytja ástarbréf til íslenskrar tónlistar sagði ég strax já því ég hélt að ég
hlyti að hafa eitthvað stórmerkilegt að segja. Ég ætlaði að mæta og heilla ykkur með
sjaldgæfum fróðleik og í leiðinni laumulega monta mig af því hvað ég væri með góðan og
sérstakan tónlistarsmekk.


Bara svo þið skiljið týpuna sem talar hér í dag þá hef ég frá unglingsaldri átt erfitt með að hlusta
á eitthvað sem er vinsælt. Platan þurfti helst að hafa fundist í læstu kofforti látins tónlistarmanns
sem enginn hafði heyrt um nema ég og nokkrir kúl vinir mínir.


En þegar ég byrjaði að semja bréfið áttaði ég mig fljótt á því að ástarbréf virka ekki þannig.
Ástarbréf eru ekki tilfinningaheftir fávitar með sígarettu í kjaftinum og í leðurbuxum. Ástarbréf
eru einlæg og þegar vel tekst til eru þau líka smá asnaleg.


Þegar ég var yngri þá voru mixteip oft notuð sem einhvers konar ástarbréf. Fyrst notuðum við
spólur en svo tóku geisladiskarnir við.


Ég veit ekki hvort ungt fólk í dag tjái ást sína með því að setja saman lagalista á streymisveitum
en ég vona það. Svo vona ég þeirra vegna að kasettan verði með feitt comeback svo unglingar
geti lært þrautseigjuna og þolinmæðina sem er bara hægt að læra með því að reyna að taka
upp lög á segulbandsspólur.


Ég vona líka að þau fatti að hafa spólurnar nægilega gamlar þannig að teipið flækist því þá fyrst
hefst skóli lífsins.


Ég er ekki með sönnunargögn eða rannsóknir að baki næstu fullyrðingu en ég held að ég hafi
fengið síðasta ástarmixteipið sem var brennt á geisladisk á Íslandi. Þetta var tveggja diska
meistarastykki með handteiknaðri kápu og handskrifuðum lagalista. Vonbiðlinum tókst að vísu
ekki að heilla mig með þessari hugulsömu gjöf en ég hef alltaf verið honum þakklát fyrir því að
hafa kynnt mig fyrir laginu Ævintýri af plötunni Lög unga fólksins. Enn þann í dag er það eitt af
mínum eftirlætislögum.


Þegar Eggert Þorleifsson syngur raunamæddur: Tilveran er eins og gamalt tyggjó, nær hann að
túlka lífsleiða á svo ótrúlega melankólískan hátt að ég mun aldrei skilja hvernig hann fór að því.


Og núna kæru gestir er ég loksins að mjaka mér í áttina að því sem mig langaði að lofsyngja í
dag. Barnaplötur og tónlistarfólkið á bak við þær. Lög unga fólksins er nefnilega samin sem
barnaplata og þegar fólk vandar sig við að búa til efni fyrir börn þá gerast undrin.

Árið sem ég fæddist kom út platan Glámur og Skrámur í sjöunda himni. Að öðrum verkum
ólöstuðum þá er þetta ennþá með betri plötum sem ég hef heyrt. Ragnhildur Gísladóttir ætti að
fá verðlaun á hverju ári fyrir að hafa leikið kýrina Ljómalind. Hvernig myndi kýr syngja?
Nákvæmlega svona. Fullkomið, ekki breyta neinu. Takk fyrir allar gleðistundirnar. Það er allt gott
við þessa plötu. Algjört rugl í gangi, endalaus ævintýralönd, geggjaðir karakterar og
sköpunarkrafturinn og hugmyndaflugið sprautast í allar áttir.


Ég á þessari plötu svo margt að þakka. Til dæmis það að ef Ragnhildur Gísladóttir og Laddi
hefðu ekki sungið tannpínulagið væri ég örugglega tannlaus af nammiáti.


Við sem fæddumst á síðustu öld og vorum svo heppin að það var kasettutæki eða plötuspilari á
heimilinu eigum þessum gjafmildu einstaklingum sem bjuggu til barnaplöturnar svo margt að
þakka. Ég segi gjafmildu því ég veit af eigin reynslu að það býr enginn til barnaefni til að verða
ríkur af því.


Mig langar að nota tækifærið og þakka ykkur sem mótuðuð æsku mína og munu halda áfram að
móta æsku barna.


Takk Katla María og Pálmi Gunnars.
Ég væri örugglega ennþá með hettusótt og rauðu hundana ef ekki hefði verið fyrir ykkur. Ég
man eftir að hafa legið í óþægilegum sófa um miðjan vetur, fárveik og hlustað á Kötlu Maríu
syngja lög um suðrænar slóðir.


Takk Halli og Laddi.
Ef þið hefðuð haldið hæfileikum ykkar út af fyrir ykkur hefði ég dáið úr leiðindum fyrir tólf ára.
Tíbón, tíbón tíbón steik handa ykkur.


Takk Ruth Reginalds.
Þú kenndir mér að stundum eru sorglegu lögin fallegust og stundum þarf maður bara að gráta af
því að hundur sem maður hefur aldrei hitt varð fyrir bíl eins og þú söngst um í laginu Tíkin þrá.


Takk Edda Björgvins og Björgvin Franz og öll sem bjugguð til plötuna um Óla prik og forðuðuð
mér frá því að eiga tíu börn.


Takk Ólafur Haukur, Gunnar Þórðarson og Olga Guðrún, Eniga Meniga ég vildi óska þess að þú
værir forseti heimsins því þá væri jörðin fyrir alla.


Og til ykkar sem hélduð hefðinni áfram.


Takk Doktor Gunni og Heiða Eiríks. Abbababb hvað þið gerið skemmtilegar plötur fyrir krakka.
Takk Memfismafían og öll sem gerðuð Diskóeyjuna og bjugguð til stórkostlegt brjálæði fyrir nýjar
kynslóðir. Það geta ekki allir verið gordjöss, það geta ekki allir meikað það en það er allt í lagi
svo lengi sem þið haldið áfram gera svona skemmtilegar barnaplötur.

Takk Páll Óskar fyrir allan tímann sem þú hefur gefið í barnamenningu og baráttu fyrir betri
heimi ég veit að þú ert núna að leika fallegasta jólatréð í bænum með Skoppu og Skrítlu af því
að þú skilur hvað er mikilvægt.


Takk Snorri Helgason og Saga Garðars fyrir Bland í poka og þið sem hafið ekki hlustað á hana
með börnunum ykkar: Skammist ykkar og verði ykkur að góðu.


Um daginn heyrði ég af árshátíð hjá ónefndu fyrirtæki hér í bæ þar sem fólk af
Söngvaborgarkynslóðinni var að skemmta sér. Tónlistaratriði kvöldsins var Sigga Beinteins.
Þegar Sigga, sem var einmitt borgarstjóri Söngvaborgar á sínum tíma, ákvað að taka lagið
Larílarílei, trylltist mannskapurinn og dansaði og söng í algleymi. Fullkomlega hamingjusöm,
loksins sameinuðust, líkaminn, sálin og barnasjálfið aftur.


Ég er ekki af söngvaborgakynslóðinni en ég skil hvernig þeim leið. Það sama hefði gerst ef ég
hefði verið á árshátíð og Laddi hefði mætt og tekið Súpermann.


Börn eru nefnilega ekki bjánar og þau eiga skilið almennilega tónlist og fólk færi almennt eftir
boðskapnum sem birtist í tónlist sem er gerð fyrir krakka, þá væri heimurinn betri. Takk fyrir mig.

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar