Dagskrá IA ráðstefnunnar 2025 tilkynnt - Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, heiðursgestur ráðstefnunnar í ár

17 October 2025

Tónlistarmiðstöð, Iceland Airwaves, Íslandsstofa og Tónlistarborgin Reykjavík kynna með stolti glæsilega dagskrá IA-ráðstefnunnar. Líkt og undanfarin ár fer ráðstefnan fram samhliða Iceland Airwaves hátíðinni, í þetta skipti dagana 6. og 7. Nóvember í Sjálfstæðissalnum, eða Nasa. Ráðstefnan hefur fest sig í sessi sem mikilvægur vettvangur fyrir íslenskan sem og alþjóðlegan tónlistariðnað og býður upp á fjölbreytta og framsækna dagskrá sem spannar pallborðsumræður, fyrirlestra og aðra viðburði og leiðir saman marga af fremstu sérfræðingum á öllum sviðum tónlistarlífsins.

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, heiðursgestur IA ráðstefnunnar 2025

Það er okkur mikill heiður að tilkynna að Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, verður heiðursgestur ráðstefnunnar í ár. Forsetinn mun opna dagskrána í ár á samtali við Althea Legaspi, fréttaritstjóra hins goðsagnakennda rits Rolling Stone. Tilefni samtalsins er 50 ára afmæli Kvennafrídagsins og til að minnast þessa sögulega dags munu Halla og Althea ræða hvernig andi verkfallsins lifir áfram í röddum og sýnileika kvenna í listum, og hvernig menning getur verið drifkraftur jafnréttis til framtíðar.

We’re Not Dead Yet: Nurturing the Grassroots



Í dag var einnig tilkynnt nýtt pallborð undir yfirskriftinni We’re Not Dead Yet: Nurturing the Grassroots. Þar verður staða og mikilvægi grasrótarinnar rædd og sérstaklega verður beint augum að því hvernig best sé að styðja við hana án þess að eiga á hættu að kæfa hana. Þátttakendur eru Albert F. Helming, bókari SPOT Festival og stjórnandi tónleika- og menningarhússins Aarhus Volume; Ólöf Rún Benediktsdóttir, tónlistar- og myndlistarkona og skipuleggjandi Norðanpaunk, einnar af mikilvægustu grasrótarhátíðum Íslands; Olivier Tura, forstöðumaður sköpunarsetursins Trempo í Nantes, sem tekur meðal annars þátt í skiptivinnudvöl í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Tónlistarmiðstöð; Ása Berglind Hjálmarsdóttir, alþingiskona með bakgrunn í menningarstjórnun; og Adam Williams, tónlistarstjóri Clwb Ifor Bach og Sŵn Festival í Cardiff, einnig umboðsmaður hljómsveitanna Panic Shack (sem spilar einmitt á Iceland Airwaves í ár) og Slate. Umræðum stýrir David Fricke, en hann er reglulegur gestur á Iceland Airwaves og goðsögn í tónlistarblaðamennsku.

Aðrir þátttakendur sem tilkynntir voru í dag


Páll Óskar Hjálmtýsson
, poppkonungur Íslands, hefur staðfest þátttöku sína í pallborðinu „Sköðunargleðin: The Storm Soaked Joy of Making Things”, ásamt Jóhannesi Bjarka Bjarkasyni, menningarritstjóra The Reykjavik Grapevine og söngvara prakkarapönkveitarinnar Skoffín. Umræðum stýrir breska fjölmiðlakonan Charis McGowan, en hún hefur skrifað fyrir mörg af helstu menningarritum heims og er þar á meðal aðstoðarritstjóri tónlistarritsins Songlines.

Sindri Már Sigfússon, eða Sin Fang, bætist í hóp mælenda í “The Big Skip: Does Anyone Listen to Music Anymore” pallborðinu. Sin Fang býr yfir áratugareynslu sem sólolistamaður og leiðtogi hljómsveitarinnar Seabear en hefur á undanförnum árum getið sér gott orð sem kvikmyndatónskáld. Sophie Williams, blaðakona hjá Billboard UK, mun stýra umræðum.

Lauren Harman og Cherish Kaya munu taka þátt í „Global but Make it Weird: How Specificity Became the New Strategy“. Lauren er furmkvöðull á sviði Sync ráðgjafar og stórvinur íslenska tónlistariðnaðarins. Hún vinnur náið með mörgum af helstu tónlistarfyrirtækjum Íslands og hefur í gegnum árin tekið þátt í að skapa gríðarleg tækifæri fyrir íslenskt listafólk. Cherish Kaya er stofnandi Kaya Kaya Records og a&r hjá hinu magnaða útgáfufyrirtæki Dirty Hit, ásamt því að sinna umboðsmennsku fyrir Self Esteem og Jockstrap. Við bjóðum einnig velkomna Erica Campell, tónlistarritstjóra og sjálfstætt starfandi blaðakonu, en hún mun stjórna umræðum. Þetta er annað árið í röð sem Erica kemur á Iceland Airwaves, en í fyrra var hún hérna til að fjalla um hátíðina fyrir hönd PAPER.


Föstudagsdagskráin tekur einnig á móti nokkrum nýjum nöfnum. Sandra Perens, meðstjórnandi Tier Music Publishing og stjórnarmeðlimur hjá Music Estonia, bætist í hópinn í pallborði sem er skipulagt af STEF og ber titilinn “Dinosaurs or Digital Pioneers? The Future of Collective Rights Management“. Rikke Andersen, framkvæmdastjóri SPOT Festival og formaður Danish Live, mun stjórna umræðum í „Are the Kids Alright? What Young Audiences Want from Showcase Festivals“ pallborðinu. Sara Maria Kordek, listrænn stjórnandi Bittersweet Festival, og Tor Breon, bókari hjá WME í London, hafa staðfest þátttöku sína í „IQ Presents: The State of Live: Fickle fans, brutal budgets, and moving markets”. Að lokum bætist Anna Hildur Hildibrandsdóttir við, en hún mun stjórna umræðum í lokapallborði föstudagsins sem ber yfirstkriftina „Boycotts, Backlash & Taking a Stand: Where Does Music Belong?“. Anna Hildur er námsbrautarstjóri BA-náms í skapandi greinum við Háskólann á Bifröst. Hún hefur einnig starfað sem blaðakona, stýrt ÚTÓN og NOMEX og unnið til verðlauna sem kvikmyndaleikstjóri og framleiðandi.

Dagskrána í heild sinni og miða má nálgast á vefsíðu IA ráðstefnunnar!

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar