Tónlistarmiðstöð auglýsir eftir umsóknum vegna fyrri úthlutunar Tónlistarsjóðs árið 2026

24 September 2025

Tónlistarmiðstöð auglýsir eftir umsóknum vegna fyrri úthlutunar Tónlistarsjóðs árið 2026. Umsóknarfrestur er til og með 30. október kl. 15:00

Um er að ræða fjórðu úthlutun Tónlistarsjóðs en sjóðurinn hefur nú þegar úthlutað um 225 milljónum króna til tæplega 250 verkefna, auk 32 milljónum í ferðastyrki sem veittir eru á tveggja mánaða fresti.
Samkvæmt tónlistarlögum og reglum um Tónlistarsjóð er hlutverk sjóðsins að efla íslenska tónlist, hljóðritagerð og þróunarstarf í íslenskum tónlistariðnaði. Sjóðurinn skal stuðla að kynningu á íslensku tónlistarfólki og tónsköpun hér á landi og erlendis.

Viðbótarframlag frá Reykjavíkurborg

Tónlistarborgin Reykjavík og Reykjavíkurborg hafa ákveðið að ráðstafa fjármunum úr Músíksjóði Guðjóns Sigurðarsonar, sem stofnaður var samkvæmt erfðaskrá þann 14. júlí 1908 og hefur nú verið slitið, sem viðbótarframlagi til deildar innviða og þróunar Tónlistarsjóðs. Heildarupphæð framlagsins nemur 11 m.kr.

Í skipulagsskrá Músíksjóðs Guðjóns Sigurðarsonar er kveðið á um að markmið sjóðsins sé að tryggja íbúum höfuðstaðarins ókeypis, eða með vægum kjörum, aðgang að góðri tónlist við almenningshæfi. Því verður, við úthlutun þessa fjármagns, sérstök áhersla lögð á stuðning við tónleikahald fyrir almenning í gegnum reykvíska tónleikastaði og tónlistarhátíðir ásamt því að fjórðungi upphæðarinnar verður veitt í verkefni fyrir börn.

Tónlistarsjóður veitir fimm styrki úr fjórum deildum:

Tónlistarstyrkir – veittir úr deild frumsköpunar og útgáfu. Styrkur til að semja tónlist, taka hana upp, gefa út og kynna.
Flytjendastyrkir
– veittir úr deild lifandi flutnings. Styrkur til tónleikahalds og tónleikaferða innanlands. Styrkirnir eru veittir beint til tónlistarfólks eða umbjóðenda þess. Langtímastyrkir eru í boði.
Viðskiptastyrkir
– veittir úr deild þróunar og innviða. Styrkur vegna tónlistarverkefna svo sem tónlistarhátíða, tónleika­staða, tónleikaraða, viðskiptahugmynda í tónlist og sprotaverkefna. Langtímastyrkir eru í boði.
Markaðsstyrkir
– veittir úr deild útflutnings. Styrkur til að vekja athygli erlendis.
Ferðastyrkir
– veittir úr deild útflutnings. Sótt er um á vef Tónlistarmiðstöðvar á tveggja mánaða fresti. Styrkur vegna ferðalaga til að sækja sér tækifæri erlendis.

Styrkir úr Tónlistarsjóði skulu veittir til ákveðinna verkefna og að öllu jöfnu þurfa verkefni að hefjast innan 18 mánaða eftir að úthlutun fer fram. Almennt eru ekki veittir styrkir til rekstrar og umsýslu samtaka, fyrirtækja og stofnana, sem hljóta regluleg rekstrarframlög, né til verkefna eða viðburða sem þegar hafa átt sér stað.

Umsóknir verða ekki teknar til greina ef lokaskýrslur, eða áfangaskýrslur, fyrir verkefni sem fengu styrk árið 2022 eða síðar hafa ekki borist í umsóknarkerfið. Þetta á við styrkveitingar úr „gamla“ Tónlistarsjóði og Hljóðritasjóði, en ekki Útflutningssjóði. 

Tónlistarmiðstöð sinnir úthlutun úr Tónlistarsjóði fyrir hönd Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytis.

Hér má nálgast upplýsingar og umsóknargögn.

Umsóknum, áfangaskýrslum og lokaskýrslum skal skilað á rafrænu formi.

Vinnustofa -  Listin að skrifa styrksumsóknir

Tónlistarmiðstöð býður tónlistarfólki og fagfólki í tónlistariðnaðinum upp á vinnustofu í styrkumsóknargerð með sjálfstætt starfandi ráðgjafanum Julie Runge Bendsen. Vinnustofan mun fara fram í sal Tónlistarmiðstöðvar, Austurstræti 5, miðvikudaginn 8. október.

Julie hefur unnið með fjölmörgum íslensku tónlistarfólki og fyrirtækjum við gerð umsókna í Tónlistarsjóði og öðrum sjóðum. Á vinnustofunni mun Julie deila með þátttakendum helstu aðferðum sem hún nýtir sér við að gera styrkumsókn skýra, markvissa og sannfærandi. Hún mun veita innblástur og hagnýt ráð um hvernig eigi að hefja umsóknarvinnu, skýra hugmynd á áhrifaríkan hátt, tengja verkefni við markmið sjóðsins og búa til raunhæfa fjárhagsáætlun.

Julie er stofnandi Pomona sem sérhæfir sig í styrkumsóknum og verkefnastjórnun fyrir tónlistarfólk og fyrirtæki í Norræna tónlistarbransanum. Hún hefur tryggt fjármögnun fyrir meðal annars Mengi, Iceland Airwaves og INNI og hefur ráðlagt mörgu tónlistarfólki við styrkumsóknargerð. Julie hefur verið hluti af íslensku tónlistarsenunni frá árinu 2015 sem starfsnemi í Mengi, þar sem hún varð síðar rekstrarstjóri. Hún starfaði einnig hjá Tónlistarborginni í Reykjavík og öðlaðist þar verðmæta reynslu af styrkumhverfinu í gegnum Úrbótasjóð tónleikastaða og tók þátt í að tryggja veglegan Evrópustyrk fyrir verkefni innan Tónlistarborgarinnar.

Skráning fer fram hér

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar