ESNS 2026 - Myndir

21 January 2026

Í síðustu viku var tónlistarhátíðin Eurosonic Noorderslag (ESNS) haldin í 40. sinn í Groningen í Hollandi. Tónlistarmiðstöð var á staðnum ásamt fríðum flokki íslensks tónlistarfólks og fagaðila. Miðstöðin studdi við för umboðskvennanna Irina Shtreis og Erin Lynch á hátíðina ásamt því að Iceland Airwaves og Rás 2 voru með fulltrúa á staðnum. 

Listafólkið Elín Hall, Inspector Spacetime og Múr komu fram á samtals 5 tónleikum á hátíðinni og var fullt út úr dyrum á öllum þeirra. Þá sátu þeir Leifur Björnsson, sérfræðingur í útflutningi hjá Tónlistarmiðstöð, og Ísleifur Þórhallsson, framkvæmdastjóri Senu Live og Iceland Airwaves, í pallborðum á ráðstefnu hátíðarinnar. Tónlistarmiðstöð hélt einnig tvær fagaðilamótttökur, annars vegar í samstarfi við norrænar tónlistarskrifstofur og hins vegar kollegum okkar frá Eistlandi.

ESNS hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem ein mikilvægasta faghátíð Evrópu. Hún er lykilvettvangur fyrir tónlistariðnaðinn til að koma saman og uppgötva það nýjasta og ferskasta sem er að gerast í tónlistarheiminum - hvort sem um er að ræða vendingar í bransanum eða eftirtektaverðustu nýju tónlistina. Í því samhengi spilar European Talent Exchange (ETE) afar mikilvægt hlutverk.

Tónlistarmiðstöð og European Talent Exchange

European Talent Exchange er samstarfsverkefni sem hjálpar evrópsku listafólki að tryggja sér bókanir á tónlistarhátíðum um allan heim. ESNS heldur utan um verkefnið í samstarfi við Samtök evrópskra tónlistarhátíða (YOUROPE) og Samband evrópskra sjónvarpsstöðva (EBU).

Á hverju ári er haldinn sérstakur ETE fundur á ESNS þar sem fulltrúar þátttökulanda kynna það listafólk sem fram kemur á hátíðinni fyrir um 130 hátíðabókurum. Vettvangurinn var settur á laggirnar árið 2003 og hefur síðan þá stuðlað að bókunum yfir 2.500 listamanna á um 200 hátíðum innan og utan Evrópu.

Tónlistarmiðstöð og Rás 2 eru fulltrúar Íslands í ETE og vinna þau markvisst saman að því að kynna íslenska tónlist og skapa ný tækifæri fyrir íslenskt tónlistarfólk á alþjóðlegum vettvangi.

Við þökkum kollegum og tónlistarfólkinu okkar fyrir frábæra hátíð! 

Myndir

Lestu einnig
Allar fréttir
Tákn Tónlistarmiðstöðvar